Sagan

Það var að undirlagi Gunnars Thoroddsen borgarstjóra að ákveðið var að stofna skólahljómsveitir í Reykjavík þann 18. nóvember 1954. Gunnar hafði haft kynni af slíku æskulýðs-starfi erlendis og beitti hann sér fyrir málinu í bæjarráði.

Bæjarráð Reykjavíkur fól þeim Páli Ísólfssyni tónskáldi, Jónasi B. Jónssyni fræðslustjóra og hljómsveitarstjórunum Karli O. Runólfssyni, Páli Pampichler Pálssyni og Haraldi Guðmundssyni að koma starfsemi hljómsveitanna á fót. Bara fyrir drengi Í lok árs 1955 komu hljóðfæri til landsins og var þá undirbúningi að stofnun tveggja hljómsveita að mestu lokið. Í hvorri sveit skyldu vera 18 aðalmenn og fimm til vara. Eingöngu drengir voru í sveitunum, valdir af söngkennurum skólanna. Fyrstu sveitirnar voru Lúðrasveit Austurbæjar og Lúðrasveit Vesturbæjar, og voru stjórnendur þeirra Páll Pampichler Pálsson og Karl O. Runólfsson sem jafnframt voru aðaltónlistarkennarar drengjanna.

Kennslufyrirkomulag var með þeim hætti að hver drengur fékk tvo einkatíma á viku, hálftíma í senn, auk samæfinga tvisvar sinnum í viku og einn tíma í söngfræði. Kennt var í kirkju Óháða safnaðarins og í Hljómskálanum, en síðar var einnig kennt í Farfuglaheimilinu að Laufásvegi 41. Hljómsveitirnar komu fyrst fram opinberlega vorið 1956 og léku þá fyrir foreldra og bæjarstjórn. Á næstu árum komu sveitirnar fram við ýmis tækifæri, svo sem í útvarpi, á jólatrésskemmtunum, sumardaginn fyrsta og á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Í skólaskýrslum frá þessum tíma kemur fram að drengirnir hafi sótt tíma og æfingar vel.

Fleiri hljóðfæri voru jafnframt keypt fyrir hljómsveitirnar og í kjölfarið voru stofnaðar tvær nýliðasveitir. Nemendur þeirra fengu kennslu og undirbúning svo þeir gætu tekið við af eldri nemendum í lúðrasveitunum tveimur.

Í skólaskýrslu frá 1960-61 kemur fram að fyrstu nemendur lúðrasveitanna hafi hætt 17. júní 1960 eftir fimm ára nám. Þá hafi þó nokkuð margir þeirra farið yfir í Lúðrasveit Reykjavíkur og Lúðrasveitina Svaninn.

Fyrsta utanlandsferðin

Árið 1963 var farið með elstu nemendur úr báðum lúðrasveitunum í tveggja vikna ferð til Björgvinjar í Noregi. Þar var tekið á móti þeim með miklum glæsibrag. Sveitin kom fram fimm sinnum og hlaut alls staðar góðar viðtökur og dóma. Fjallað var um þessa fyrstu heimsókn íslenskrar barnalúðrasveitar til Noregs í öllum dagblöðum í Björgvin. Í skólaskýrslu 1967-68 er fyrst talað um að stúlkur leiki með lúðrasveitunum, en þá voru níu stúlkur í yngri deild.

Árið 1971 féll Karl O. Runólfsson frá, en hann hafði stjórnað Lúðrasveit Austurbæjar frá upphafi. Stefán Þ. Stephensen sem hafði kennt við lúðrasveitirnar tók við starfi hljómsveitarstjóra. Stefán stjórnaði skólahljómsveitinni til 2004 þegar Vilborg Jónsdóttir núverandi stjórnandi tók við.

Hljómsveit í hverju hverfi

Á fundi fræðsluráðs 5. júlí 1976 var samþykkt að leggja til við borgarráð að sú breyting yrði gerð á starfsemi lúðrasveitanna að þær störfuðu framvegis í tilgreindum hverfaskólum. Áformað var fyrst um sinn að miða starfsemina við Vesturbæ, Norðausturbæ og Árbæjarog Breiðholtshverfi. Borgarráð samþykkt tillöguna 7. júlí 1976. Í kjölfarið var Lúðrasveit Austurbæjar breytt í Lúðrasveit Laugarnesskóla. Lúðrasveit Vesturbæjar hélt nafni sínu en flutti aðsetur sitt úr Hljómskálanum yfir í Melaskóla.

Skólaárið 1977-78 voru 159 nemendur í lúðrasveitunum og var kennt á þremur stöðum í borginni, í Melaskóla, Laugarnesskóla og í Árbæ og Breiðholti. Þrír fastráðnir kennarar störfuðu við sveitirnar og 11 stundakennarar.

Skólahljómsveit Grafarvogs hóf starfsemi 1992 sem sérverkefni á vegum Skólaskrifstofu Reykjavíkur, en var formlega stofnuð ári síðar.

Laugarnesskóli, 2013
Vilborg Jónsdóttir