Málmblásturshljóðfæri

TROMPET

Myndband með trompetinu

Námskrá fyrir trompet á einnig við um kornett og flygilhorn enda eru hljóðfærin náskyld og nýta sama kennsluefni. Til hægðarauka og ein- földunar er námskráin kennd við trompet og hann oftast einn nefndur í stað þess að telja upp öll hljóðfærin þrjú.

Nám á trompet getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið og fullorðinsframtennur eru komnar á sinn stað. Algengast er að námið hefjist þegar nemendur eru á aldrinum 8 til 10 ára. Oft þykir heppilegt að nemendur hefji nám á kornett þar sem það er léttara og meðfærilegra en trompet.

Trompetar eru til í mörgum stærðum og tóntegundum en algengastur er trompet í B. Hann er grunnhljóðfæri í öllu trompetnámi og nánast einráður í lúðrasveitum og rytmískri tónlist. Minni trompetar, s.s. D- trompet, Es-trompet og piccolotrompet í B eða A, eru einkum notaðir til að leika eldri trompetkonserta og nútímatónlist. Í sinfóníuhljómsveitum er C-trompet algengastur en B-trompet og minni trompetar eru einnig talsvert notaðir. Kornett og flygilhorn hafa verið í notkun síðan snemma á 19. öld. Kornett var afar vinsæll um aldamótin 1900 og var þá mikið skrifað af glæsilegum einleiksverkum fyrir hann. Nú til dags er flygil- horn algengast sem aukahljóðfæri trompetleikara í stórsveitum og öðrum djasshljómsveitum.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mikilvægt er að nem- endum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þessari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.

HORN

Myndband með horninu

Hljóðfærið, sem hér um ræðir, hefur verið nefnt ýmsum nöfnum, þar á meðal franskt horn og skógarhorn. Í þessari námskrá er hljóðfærið ein- faldlega nefnt horn.

Nám á horn getur hafist þegar nemendur hafa náð nægilegum líkams- þroska til að halda á hljóðfærinu. Æskilegt er að hornnemendur hafi beinar framtennur og ekki mjög þykkar varir. Stærð og lögun hornsins gerir það að verkum að börn yngri en 12 ára geta átt í erfiðleikum með að halda á því. Þó eru til hljóðfæri sem eru sérstaklega hönnuð fyrir yngri nemendur. Algengt er, en ekki nauðsynlegt, að nemendur læri fyrst á annað minna og meðfærilegra málmblásturshljóðfæri, svo sem trompet, kornett eða althorn. Slíkt nám getur hafist töluvert fyrr eða um leið og nemandinn hefur líkamlega burði til að leika á viðkomandi hljóðfæri.

Til eru þrenns konar hljóðfæri fyrir byrjendur: einfalt F-horn, einfalt B- horn og tvöfalt horn í F/B. Allar þessar tegundir hafa sína kosti og galla. F-hornið gefur dæmigerðan horntón, er tiltölulega hreint og fingrasetn- ing er svipuð og á trompet, kornetti og althorni. Þetta er kostur fyrir þá nemendur sem eru að skipta yfir á horn eftir að hafa lært á eitthvert þessara hljóðfæra. Tónöryggi á efra tónsviði F-hornsins er hins vegar mun minna en á B-horni en B-hornið er aftur léttara. Ókostir B-hornsins eru einkum á neðra tónsviðinu hvað varðar hreinleika og tóngæði, auk þess sem fingrasetningar eru frábrugðnar öðrum málmblásturshljóð- færum.

Með notkun þumalventils sameinar tvöfalda hornið F- og B-hornin í eitt hljóðfæri og gefur nemendum þannig tækifæri til að nýta kosti beggja, án galla þeirra. Gott tvöfalt horn með meðalstóra bjöllu hlýtur því að telj- ast besti kosturinn fyrir nemendur á flestum stigum námsins þó að í mörgum tilfellum verði þeir að notast við hljóðfæri sem tónlistarskólinn útvegar. Nauðsynlegt er að nemendur í miðnámi hafi til umráða tvöfalt horn. Rétt er að benda á að tvöfalt horn er dýrara og þyngra en einfalt horn.

Millistærð munnstykkis er í flestum tilfellum skynsamlegasti kosturinn fyrir nemandann. Munnsetning hornleikara er ólík því sem gerist hjá öðrum málmblásurum. Munnstykkið hvílir mun hærra á vörunum, eða um 60–70% á efri vör og 30–40% á neðri vör. Mikilvægt er að hornnem- endur tileinki sér rétta munnsetningu frá upphafi námsins.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mjög æskilegt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þess- ari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.

BÁSÚNA

Myndband með básúnunni

Básúnur eru til í ýmsum stærðum og gerðum. Námskrá þessi gerir ráð fyrir að algengasta gerðin, tenórbásúnan, sé notuð sem aðalhljóðfæri.

Nám á básúnu getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið. Algengast er að básúnunám hefjist um 9 til 10 ára aldur.

Tenórbásúnan er til í nokkrum útfærslum. Mælt er með því að ungir byrjendur hafi til umráða fremur létt hljóðfæri með grönnum pípum (t.d. medium eða small bore). Munnstykki byrjenda ættu heldur ekki að vera stór. Eðlilegt er að nemendur skipti yfir á stærra hljóðfæri og stærra munnstykki þegar þeir vaxa að burðum og ná betri tökum á básúnu- leiknum. Mælt er með að nemendur kynnist sem fyrst notkun F-ventils og hafi til umráða slíkt hljóðfæri eigi síðar en í miðnámi.

Þar sem sleðinn er aðaleinkenni básúnunnar er ekki hægt að líta á takkabásúnu sem básúnu enda er hún ventlahljóðfæri, skylt barítón- horni. Í námskránni er miðað við að notuð sé sleðabásúna.

Töluvert er til af tónlist fyrir básúnu, bæði einleiks- og samleiksverkum. Mikill meirihluti kennslubóka fyrir básúnu er ætlaður tenórbásúnu en

sérstakar kennslubækur eru til fyrir alt- og bassabásúnu. Básúnan er not- uð í flestum tegundum tónlistar: sígildri tónlist, ýmiss konar blásaratón- list, djassi, dægurtónlist og samtímatónlist.

Þó að vissrar tilhneigingar gæti til að skipta básúnuleikurum í tvo aðal- flokka, þ.e. tenór- og bassabásúnuleikara, er öllum básúnuleikurum hollt að kynnast fleiri en einum meðlim básúnufjölskyldunnar einhvern tíma á námsferlinum.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mjög æskilegt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þess- ari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.

BARÍTÓNHORN

Barítónhorn eru til í mismunandi stærðum og hafa mismunandi nöfn í ólíkum löndum, s.s. tenórhorn, barítón, euphonium og jafnvel tenór- túba. Í talmáli er heitið þó oftar en ekki stytt í barítón. Hér á landi hefur hljóðfærið verið nefnt barítónhorn eða tenórhorn. Í raun er um tvö mjög lík hljóðfæri að ræða en í þessari námskrá er litið á þau sem eitt og sama hljóðfærið. Rétt er að geta þess að í Bretlandi er hugtakið „tenor horn“ notað yfir horn í Es sem hérlendis er nefnt althorn.

Nám á barítónhorn getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið. Algengast er að námið hefjist við 8 til 9 ára aldur. Þegar um svo unga nemendur er að ræða er æskilegt að skólinn eigi hljóðfæri til afnota fyrir nemendur í kennslustundum enda gæti þeim reynst erfitt að ferðast með hljóðfæri af þessari stærð.

Barítónhorn fást ýmist með þremur eða fjórum ventlum. Algengast er að nemendur hefji nám á hljóðfæri með þremur ventlum en skipti síðar yfir í fullkomnara hljóðfæri. Fjórði ventillinn auðveldar leik djúpra tóna og eykur nákvæmni í inntónun.

Tónlist fyrir barítónhorn er ýmist skrifuð í G- eða F-lykli, annars vegar í B eins og fyrir B-trompet, hins vegar í C eins og fyrir básúnu. Hvort tveggja er álíka algengt.

Fremur lítið er til af tónlist sem sérstaklega er samin fyrir barítónhorn. Nemendur nýta sér því gjarnan nótur sem skrifaðar eru fyrir önnur hljóðfæri, s.s. trompet, básúnu, selló, fagott eða túbu. Algengt er að yngri nemendur notist við kennsluefni fyrir trompet eða básúnu eftir því hvort þeir hafa vanist að lesa nótur í G-lykli eða F-lykli.

Barítónhornið er mest áberandi í ýmiss konar blásaratónlist en einnig er það stöku sinnum notað í sinfónískum verkum.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mjög æskilegt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þessari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.

TÚBA

Myndband með túbunni

Túba er stórt og fyrirferðarmikið hljóðfæri. Því getur verið æskilegt að nemendur hefji nám á annað minna og meðfærilegra málmblásturs- hljóðfæri en skipti síðar yfir á túbu þegar kennari telur henta. Þess má þó geta að á síðari árum hafa verið hannaðar minni túbur sérstaklega með unga nemendur í huga.

Nám á túbu getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið, oftast við 10 til 12 ára aldur. Dæmi eru þó um að nem- endur byrji talsvert fyrr, allt niður í 8 ára aldur.

Algengt er að tónlistarskólar og lúðrasveitir leigi eða láni nemendum túbur vegna þess hve dýrar þær eru. Æskilegt er að skólar eigi einnig hljóðfæri til afnota fyrir nemendur í kennslustundum og samleik enda getur ungu fólki reynst erfitt að ferðast með hljóðfæri af þessari stærð.

Túbur eru til í mörgum stærðum og gerðum, misdjúpar. Algengastar eru túbur í B eða Es og miðar námskráin við að notuð séu slík hljóðfæri. Í sinfóníuhljómsveitum eru túbur í C hins vegar algengastar en túbur í F eru gjarnan notaðar af einleikurum og í kammerhópum.

Flestar túbur hafa þrjá ventla en hægt er að fá þær með fjórum, fimm og sex ventlum. Fleiri ventlar en þrír gera mögulegt að ná dýpri nótum og auka nákvæmni í inntónun.

Tónlist fyrir túbu er allajafna skrifuð í F-lykli, án tónflutnings, og gildir þá einu um hvaða gerð hljóðfærisins er að ræða. Í breskum kennslubók- um eru túbunótur þó oft skrifaðar í G-lykli og tónfluttar í B eða Es.

Túbunni bregður fyrir í öllum tónlistarstefnum en fyrst og fremst er hún notuð í lúðrasveitum, sinfóníuhljómsveitum og kammerhópum. Þó að túban sé ekki dæmigert einleikshljóðfæri er til talsvert af einleiksverkum fyrir hljóðfærið en mörg þeirra eru umritanir verka fyrir önnur hljóðfæri, svo sem selló og trompet.

Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mjög æskilegt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þess- ari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.