Túba er stórt og fyrirferðarmikið hljóðfæri. Því getur verið æskilegt að nemendur hefji nám á annað minna og meðfærilegra málmblásturs- hljóðfæri en skipti síðar yfir á túbu þegar kennari telur henta. Þess má þó geta að á síðari árum hafa verið hannaðar minni túbur sérstaklega með unga nemendur í huga.Nám á túbu getur hafist þegar nemendur hafa líkamlega burði til að leika á hljóðfærið, oftast við 10 til 12 ára aldur. Dæmi eru þó um að nem- endur byrji talsvert fyrr, allt niður í 8 ára aldur.Algengt er að tónlistarskólar og lúðrasveitir leigi eða láni nemendum túbur vegna þess hve dýrar þær eru. Æskilegt er að skólar eigi einnig hljóðfæri til afnota fyrir nemendur í kennslustundum og samleik enda getur ungu fólki reynst erfitt að ferðast með hljóðfæri af þessari stærð.Túbur eru til í mörgum stærðum og gerðum, misdjúpar. Algengastar eru túbur í B eða Es og miðar námskráin við að notuð séu slík hljóðfæri. Í sinfóníuhljómsveitum eru túbur í C hins vegar algengastar en túbur í F eru gjarnan notaðar af einleikurum og í kammerhópum.
 
Flestar túbur hafa þrjá ventla en hægt er að fá þær með fjórum, fimm og sex ventlum. Fleiri ventlar en þrír gera mögulegt að ná dýpri nótum og auka nákvæmni í inntónun.Tónlist fyrir túbu er allajafna skrifuð í F-lykli, án tónflutnings, og gildir þá einu um hvaða gerð hljóðfærisins er að ræða. Í breskum kennslubók- um eru túbunótur þó oft skrifaðar í G-lykli og tónfluttar í B eða Es.Túbunni bregður fyrir í öllum tónlistarstefnum en fyrst og fremst er hún notuð í lúðrasveitum, sinfóníuhljómsveitum og kammerhópum. Þó að túban sé ekki dæmigert einleikshljóðfæri er til talsvert af einleiksverkum fyrir hljóðfærið en mörg þeirra eru umritanir verka fyrir önnur hljóðfæri, svo sem selló og trompet.Mikið er til af samleiksverkum fyrir málmblásara. Algengust eru kvintettar, kvartettar og tríó en einnig er talsvert um verk fyrir stærri hópa, svo sem lúðrasveitir og málmblásarakóra. Mjög æskilegt er að nemendum á málmblásturshljóðfæri gefist tækifæri til að kynnast þessari tónlist, gjarnan í reglulegu starfi samleikshópa.
(úr Aðalnámskrá tónlistarskóla – Málmblásturshljóðfæri)